Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur
  • Ökumælir óvirkur
  • Sönnun

Úrskurður nr. 219/1998

Þungaskattur 1996

Lög nr. 3/1987, 14. gr. (brl. nr. 68/1996)  

Í kærumáli vegna áætlunar þungaskatts af bifreið með óvirkan ökumæli hélt kærandi því fram að akstur umræddrar bifreiðar hefði minnkað mikið á árinu 1996 og bifreiðin staðið að mestu óhreyfð frá lokum marsmánaðar þess árs. Eins og viðkomandi lagaákvæðum var farið taldi yfirskattanefnd það bera undir kæranda að leggja fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu sinni. Með því að kærandi hefði engin slík gögn lagt fram þrátt fyrir áskorun ríkisskattstjóra þar um var ekki talið unnt að verða við kröfu kæranda í málinu.

I.

Með kæru, mótt. hjá ríkisskattstjóra 9. desember 1996, hefur kærandi mótmælt endurákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 1996, á þungaskatti vegna bifreiðarinnar X á 1., 2. og 3. gjaldtímabili 1996 og krefst þess að áætlunin verði lækkuð. Með bréfi, dags. 16. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri framsent kæruna yfirskattanefnd með því að hún hafi borist í kærufresti til nefndarinnar.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 18. júlí 1996, vakti kærandi athygli ríkisskattstjóra á því að komið hefði í ljós að ökumælir bifreiðarinnar X væri ónýtur. Væri nauðsynlegt að endurákvarðaða þungaskatt vegna bifreiðarinnar af þessum sökum. Af þessu tilefni beindi ríkisskattstjóri því til kæranda með bréfi, dags. 23. september 1996, að láta í té skýringar og gögn um akstur á því tímabili sem ökumælir sýndi sömu stöðu, t.d. með afriti úr akstursbók, afriti úr smurbók, kvittunum fyrir olíureikningum, reikningum eða öðrum gögnum sem gæfu til kynna hver raunverulegur akstur ökutækisins hefði verið. Bærust ríkisskattstjóra fullnægjandi skýringar innan 15 daga frests, sem gefinn var í því skyni, myndi ríkisskattstjóri endurákvarða skatt á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en að öðrum kosti myndi hann ákvarða skatt samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Í svarbréfi kæranda, dags. 2. október 1996, var lagt fram ljósrit úr smurbók bifreiðarinnar svo og ljósrit af vottorði um skiptingu ökumælis. Þá kom fram í bréfinu að farið hefði verið með bifreiðina í álestur þann 5. júní 1996, en þegar þungaskattsreikningur hefði borist nokkrum vikum síðar, hefði komið í ljós að þungaskattur væri nær enginn. Hefði ökumælir, sem staðsettur væri í hjólabúnaði bifreiðarinnar, verið athugaður og hann ekki reynst virkur.

Með bréfi, dags. 10. október 1996, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun þungaskatts fyrir 1., 2. og 3. tímabil þungaskatts árið 1996, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 68/1996, með því að áætla akstur bifreiðarinnar með 22.015 km og ákvarða þungaskatt samkvæmt því 537.672 kr. Fyrirhugað væri að skipta akstri þannig á gjaldtímabil að 8.207 km teldust vegna fyrsta tímabils, 8.208 km vegna annars tímabils og 5.600 km vegna þriðja tímabils. Tók ríkisskattstjóri fram að þar sem ekki hefði verið lesið af ökumælinum síðan 3. október 1995 væri ómögulegt að segja til um hvenær hann hefði bilað, en með tilliti til þess að hann hefði einungis talið u.þ.b. 41 km þegar lesið var af honum 6. júní 1996, væri líklegt að það hefði verið stuttu eftir álesturinn 3. október 1995. Af ljósriti smurbókar bifreiðarinnar kæmi fram að akstur bifreiðarinnar á tímabilinu 20. nóvember 1995 til 14. maí 1996 hefði verið 16.415 km sem væru um 2.800 km á mánuði. Með hliðsjón af þeim upplýsingum og þeirri staðreynd að nýr ökumælir hefði verið settur í ökutækið þann 18. júlí 1996 yrði bætt við 5.600 km sem samsvaraði u.þ.b. tveggja mánaða akstri og tæki sú áætlun til tímabilsins 14. maí 1996 til 18. júlí 1996.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 1996, hratt ríkisskattstjóri ákvörðun sinni í framkvæmd á þeim grundvelli sem fram hafði komið í boðunarbréfi hans, dags. 10. október 1996, en ekki verður séð að því hafi verið svarað af hálfu kæranda.

II.

Af hálfu kæranda eru mótmæli við ákvörðun ríkisskattstjóra á því byggð að smurbók fyrir tímabilið 20. nóvember 1995 til 14. maí 1996 sýndi 16.415 km akstur sem láti nærri lagi að sé akstur fyrir áætlað tímabil. Auk þess hafi akstur bifreiðarinnar minnkað mjög frá ársbyrjun 1996 þar sem hætt hefði verið að vinna með fiskbein í verksmiðju kæranda, en bifreiðin hafi mikið verið notuð til aksturs … til að sækja bein og annan fiskúrgang. Nú sé aðeins unnið með loðnu og síld. Hafi bifreiðin því aðeins verið notuð yfir hávertíðina sem sé frá lokum janúar og út mars en staðið að mestu leyti frá þeim tíma. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi á árinu keypt nýja vörubifreið sem fyrst sé gripið til þurfi einhvern akstur utan vertíðar.

III.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„I. Samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með breytingum skv. lögum nr. 68/1996 kemur fram í ákvæðum til bráðabirgða í 1. mgr. kafla I. að ákvæði breytingarlaganna nr. 68/1996 um endurákvörðun skulu gilda um akstur frá upphafi þriðja gjaldtímabils ársins 1996 sem hófst 11. júní 1996. Í 2. mgr. sama kafla kemur fram að ætíð skuli beita ákvæðum laga nr. 68/1996 við ákvörðun þungaskatts vegna aksturs á fyrri gjaldtímabilum, að því leyti sem þau eru ívilnandi fyrir greiðendur skattsins. Einnig ber að hafa í huga að skv. lokamálslið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis í kafla I í lögum nr. 68/1996 skuli ákvæði laganna um málsmeðferð vegna brota á lögum nr. 3/1987 gilda um brot sem framin voru fyrir gildistöku laga nr. 68/1996.

Um vantalinn akstur sem átti sér stað fyrir gildistöku laga nr. 68/1996 voru í gildi ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Samkvæmt því ákvæði var heimilt að beita „viðurlögum“ sem samsvöruðu allt að 10.000 km akstri á mánuði og var það háð mati hverju sinni. Í raun var að jafnaði beitt þeirri reglu að áætla þungaskatt miðað við meðaltalsakstur og við það bætt 10% álagi.

Eftir 11. júní 1996 var ríkisskattstjóra veitt heimild til endurákvörðunar á vantöldum akstri skv. 14. gr. laga nr. 3/1987 sbr. c-lið 15. gr. laga nr. 68/1996. Skv. því ákvæði skal beita hlutlægu mati við áætlun á vantöldum akstri, þ.e. ýmist 2.000 km eða 500 km fyrir hverja byrjaða viku sem talið er að akstur hafi verið vantalinn. Þó er heimilt að endurákvarða á grundvelli fullnægjandi skýringa eða gagna sem borist hafa ríkisskattstjóra í kjölfar fyrirspurnar og boðunar.

II. Að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Kærandi heldur því fram að akstur ökutækisins X hafi minnkað svo frá áramótum 1995/1996 að rétt sé að miða við að akstur sá sem fram kemur í smurbók ökutækisins á tímabilinu frá 20. nóvember 1995 til 14. maí 1996, hafi allur átt sér stað frá lok janúar 1996 til loka mars 1996. Kærandi leggur ekki fram nein gögn um kyrrstöðu ökutækisins frá byrjun apríl 1996 til 18. júlí 1996, en þá var nýr ökumælir settur í ökutækið.“

IV.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 68/1996, er ríkisskattstjóra heimilt að endurákvarða þungaskatt vegna þungaskattsskylds ökutækis komi fram við eftirlit, álestur eða með öðrum hætti að akstur ökutækis hafi verið meiri en skráning á álestri gefur til kynna. Í ákvæði til bráðabirgða I með lögum nr. 68/1996 kemur fram að ákvæði laganna m.a. um endurákvörðun skulu gilda um akstur frá upphafi þriðja gjaldtímabils ársins 1996, þ.e. 11. júní 1996. Þó skal beita ákvæðum laganna „við ákvörðun þungaskatts vegna aksturs á fyrri gjaldtímabilum, að því leyti sem þau eru ívilnandi fyrir greiðendur skattsins“. Síðastnefnda reglu þykir bera að skilja þannig að um endurákvörðun þungaskatts vegna gjaldtímabila fyrir 11. júní 1996 fari eftir þeim ákvæðum sem um þetta gilda samkvæmt lögum nr. 68/1996 ef þau leiða til hagstæðari niðurstöðu fyrir gjaldanda en verið hefði eftir áðurgildandi lögum. Mál þetta varðar endurákvörðun þungaskatts kæranda á fyrsta, öðru og þriðja gjaldtímabili árið 1996, þ.e. að öllu verulegu fyrir 11. júní 1996. Verður ekki annað séð en að skilyrði hafi verið til þess að ríkisskattstjóri færi með málið með þeim hætti sem gert var.

Sem áður segir tók endurákvörðun ríkisskattstjóra til gjaldtímabilanna 11. október 1995 til 10. febrúar 1996 (1. gjaldtímabil 1996), 11. febrúar 1996 til 10. júní 1996 (2. gjaldtímabil 1996) og 11. júní 1996 til 10. október 1996 (3. gjaldtímabil 1996). Þau atvik lágu til endurákvörðunarinnar að ökumælir bifreiðar kæranda bilaði eftir að lesið var af honum 3. október 1995, þ.e. vegna 3. gjaldtímabils 1995. Við næsta álestur, sem var 5. júní 1996, sýndi ökumælirinn einungis 41 km akstur. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um álestur vegna 1. gjaldtímabils 1996.

Ekki er ágreiningur í málinu um að áætlunarforsenda hafi verið fyrir hendi, sbr. 14. gr. laga nr. 3/1987, sbr. lög nr. 68/1996, af þeim sökum að ökumælir hafi verið óvirkur. Samkvæmt smurbók vegna bifreiðarinnar, sem kærandi lagði fyrir ríkisskattstjóra, hafði bifreiðinni verið ekið 16.415 km á tímabilinu 20. nóvember 1995 til 14. maí 1996 og lagði ríkisskattstjóri þær upplýsingar til grundvallar áætlun sína um akstur á þessu tímabili. Samkvæmt því hefur ríkisskattstjóri ekki talið ástæðu til sérstakrar áætlunar vegna tímabilsins 3. október 1995 til 20. nóvember 1995 umfram þann 41 km sem fram kom við álestur. Þessu til viðbótar áætlaði ríkisskattstjóri 5.600 km akstur vegna tímabilsins 14. maí 1996 til 18. júlí 1996, en þann dag var ökumælir bifreiðarinnar endurnýjaður, og tók við þá áætlun mið af meðalakstri á mánuði samkvæmt síðustu skráningum í smurbók.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að í máli þessu sé ekki ágreiningur um ákvörðun ríkisskattstjóra um þungaskatt miðað við 16.415 km akstur á 1. og 2. gjaldtímabili 1996, enda byggði hún á gögnum frá kæranda. Krafa kæranda lýtur hins vegar að því að áætlun þungaskatts miðað við 5.600 km akstur, sem ríkisskattstjóri taldi til 3. gjaldtímabils 1996, verði felld niður. Telur kærandi að sá akstur, sem fram komi í smurbók, láti nærri að vera akstur fyrir allt áætlað tímabil, enda hafi akstur bifreiðarinnar minnkað mikið á árinu 1996 og hafi hún staðið að mestu óhreyfð frá lokum marsmánaðar þess árs. Svo sem ákvæðum 14. gr. laga nr. 3/1987, sbr. lög nr. 68/1996, er farið, ber það undir kæranda að leggja fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu sinni. Þrátt fyrir áskorun ríkisskattstjóra í bréfi, dags. 23. september 1996, hefur kærandi engin slík gögn lagt fram. Af þeirri ástæðu er ekki unnt að verða við kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja