Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurupptaka úrskurðar
- Kröfugerð ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 225/1998
Gjaldár 1994
Lög nr. 113/1990, 2. gr. 2. mgr.
Fallist á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 830/1995 og álagningu tryggingagjalds á kæranda gjaldárið 1994 í sérstökum gjaldflokki með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra, sjónarmiða í H 1998:268 [ST 1998:8] varðandi þátt ríkisskattstjóra í málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd og álits umboðsmanns Alþingis frá 15. nóvember 1996 í máli nr. 1726/1996 (SUA 1996:564).
I.
Með bréfi, dags. 29. nóvember 1996, hefur kærandi farið fram á að úrskurður yfirskattanefndar nr. 830 frá 25. október 1995 verði endurupptekinn og fallist á álagningu tryggingagjalds á kæranda gjaldárið 1994 í sérstökum gjaldflokki tryggingagjalds, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum. Til stuðnings beiðninni vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis, dags. 15. nóvember 1996, í máli nr. 1726/1996 vegna kvörtunar kæranda út af úrskurði þessum. Í niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis segir:
„Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að flokka hafi átt tryggingagjald [kæranda] fyrir gjaldárið 1994 í sérstakan gjaldflokk samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Úrskurður yfirskattanefndar, dags. 25. október 1995, hafi því verið rangur að þessu leyti. Af þessum sökum beini ég þeim tilmælum til yfirskattanefndar að endurupptaka mál félagsins, fari forsvarsmenn þess fram á það, og verði þá tekið mið af framangreindum sjónarmiðum við beitingu ákvæða 2. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 við úrlausn málsins auk þess sem gætt verði þeirra krafna sem lög gera til rökstuðnings kæruúrskurða yfirskattanefndar.“
II.
Með bréfi, dags. 27. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda í tilefni af endurupptökubeiðni kæranda:
„Með vísan til álits umboðsmanns Alþingis frá 15. nóvember 1996 í máli nr. 1726/1996, er fallist á endurupptökubeiðni kæranda.“
III.
Kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu þykir bera að skilja svo að ekki sé einasta fallist á að mál kæranda vegna álagningar tryggingagjalds gjaldárið 1994, sem varðaði tryggingagjald af launagreiðslum vegna framkvæmda við laxastiga, verði tekið til nýrrar meðferðar, heldur telji ríkisskattstjóri jafnframt að efniskrafa kæranda skuli ná fram að ganga á grundvelli niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í framangreindu áliti. Samkvæmt þessu og með skírskotun til sjónarmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar Íslands 22. janúar 1998 í málinu nr. 456/1997, varðandi þátt ríkisskattstjóra í málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd, svo og með vísan til framangreinds álits umboðsmanns Alþingis er fallist á endurupptökubeiðni kæranda og krafa hans tekin til greina.