Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjaldþrotaskipti
  • Skattskylda
  • Framtalsskylda

Úrskurður nr. 363/1998

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 2. gr. 1. mgr. 5. tölul., 91. gr.  

Bú kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 1993. Skattstjóri færði kæranda til tekna greiðslu, sem hann hafði upplýsingar um að hafði fallið til kæranda á árinu 1993 fyrir upphaf skipta. Kærandi taldi skattskil vegna umræddrar greiðslu sér óviðkomandi þar sem greiðslan væri til komin áður en bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og þar af leiðandi væri það hlutverk skiptastjóra búsins að gera grein fyrir greiðslunni. Yfirskattanefnd tók fram að skattstjóri hefði hvorki krafið kæranda né skiptastjóra í búi hans um skattskil fyrir tímabilið 1. janúar 1993 til þess dags er bú kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst að framlögð skattskil kæranda hefðu aðeins náð til tímabilsins frá og með uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar til 31. desember 1993, heldur látið við það sitja að færa kæranda til tekna hina umdeildu greiðslu. Ekki voru þó talin efni til að fella umrædda tekjufærslu niður og var í því sambandi vísað til óhjákvæmilegs samhengis skattskila kæranda fyrir árið 1993, m.a. varðandi persónuafslátt, burtséð frá því hverjum bæri að annast framtalsskyldu og þess að óumdeilt væri að um hefði verið að ræða skattskyldar tekjur kæranda og að ekki yrði séð að meðferð skattstjóra hefði leitt til of hárrar álagningar á kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki í skattframtali sínu árið 1994 greindi kærandi frá því að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. mars 1993 og vísaði til nafngreinds bústjóra um upplýsingar varðandi eignir og skuldir frá fyrra ári.

Við almenna álagningu opinberra gjalda 1994 voru gjöld kæranda ákvörðuð samkvæmt innsendu skattframtali að gerðum breytingum sem ekki er ágreiningur um, sbr. bréf skattstjóra, dags. 17. maí 1994, þar sem hreinar tekjur af búrekstri í reit 62 eru hækkaðar um beingreiðslur og vexti að frádregnum sjóðagjöldum.

Með bréfi, dags. 5. desember 1994, óskaði skattstjóri eftir upplýsingum kæranda um tilgreindar verktakagreiðslur sem kærandi hefði á árinu 1993 fengið frá þremur aðilum, en misræmi væri milli sundurliðunar yfir vélavinnu og aðra vinnu samkvæmt fylgiblaði með skattframtali kæranda árið 1994 og upplýsinga samkvæmt launamiðum frá viðkomandi aðilum. Um var að ræða verktakagreiðslu frá D að fjárhæð 482.073 kr. samkvæmt launamiða, en kærandi tekjufærði 402.073 kr., og greiðslur frá A-hreppi 156.572 kr. og B 27.944 kr. sem ekki væru tekjufærðar samkvæmt tekjusundurliðun kæranda.

Með bréfi, dags. 2. janúar 1995, vefengdi kærandi tilgreiningu D og hélt því fram að tekjufærsla sín væri rétt, greiðsluna frá B hefði hann gleymt að telja fram, en að því er varðar greiðslu frá A-hreppi 125.758 kr. auk virðisaukaskatts 30.814 kr. eða alls 156.572 kr., sem væri vegna snjómoksturs, tók kærandi fram að hinn 22. mars 1993 hefði verið kveðinn upp gjaldþrotaúrskurður yfir honum og samkvæmt eðli málsins væri bústjóri með alla hans pappíra. Umrædd vinna við snjómokstur fyrir hreppinn hefði verið unnin fyrir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 1995, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að færa fyrrgreinda greiðslu frá A-hreppi 125.758 kr. án virðisaukaskatts til tekna á skattframtali hans 1994 auk greiðslu þeirrar frá B að fjárhæð 22.445 kr. án virðisaukaskatts, sem kærandi hafði fallist á að væri vantalin, og hækka virðisaukaskattsskylda veltu í samræmi við það eða um 148.203 kr. og útskatt um 36.313 kr.

Í svarbréfi sínu, dags. 11. febrúar 1995, mótmælti kærandi hinni boðuðu breytingu skattstjóra að því er snerti greiðsluna frá A-hreppi. Ítrekaði kærandi að þessa greiðslu hefði hann fengið fyrir úrskurðardag gjaldþrotaskipta og því væri þetta á könnu skiptastjóra þrotabúsins, enda yrði að líta svo á að um væri að ræða tvo aðila, þ.e. annars vegar þrotabú kæranda, sem væri í umsjá skiptastjórans, og hins vegar kæranda sjálfan persónulega er héldi áfram sjálfstæðri tilveru.

Með bréfi, dags. 23. október 1995, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og tekjufærði umræddar greiðslur. Að því er varðar greiðsluna frá A-hreppi 125.758 kr. tók skattstjóri fram að sú sala, sem þar um ræddi, virtist hafa farið fram fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og bæri því að tekjufæra hana hjá kæranda.

Kærandi mótmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 3. desember 1995. Ítrekaði hann þau rök að hann sjálfur og þrotabú hans væru tveir aðskildir aðilar. Umræddar tekjur hefðu fallið til fyrir úrskurðardag gjaldþrotaskipta og væri því við skiptastjóra að eiga varðandi framtal þessara tekna, enda væru gögn um þær í hans höndum.

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 28. desember 1995. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi í úrskurðinum:

„Líta verður svo á að tekjur þrotabúsins séu einungis þær sem bústjóri aflar meðan á skiptum stendur. Aðrar tekjur séu tekjur viðkomandi einstaklings eða félags hvort sem þeirra er aflað fyrir eða eftir gjaldþrot, sjá meðfylgjandi ljósrit af leiðbeiningum ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskattsuppgjör gjaldþrotabúa.“

II.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 22. janúar 1996. Ítrekar kærandi fyrri rök sín um að umrædd greiðsla 125.758 kr. frá A-hreppi sé mál skiptastjóra í þrotabúi hans. Strax eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti hinn 22. mars 1993 hafi hann farið með öll sín gögn, þ.m.t. allt bókhald frá 1. janúar 1992 til 22. mars 1993, til skiptastjórans samkvæmt fyrirmælum frá honum. Í framhaldi af þessari afhendingu hafi honum ekki verið kleift að gera grein fyrir bókhaldi, sem hann hefði ekki undir höndum, og því væri honum mál þetta óviðkomandi. Kærandi gerir í kærunni grein fyrir því að á tímabilinu 22. janúar 1993 til 5. febrúar 1993 hafi hann unnið við snjómokstur, sbr. reikninga kæranda á hendur A-hreppi sem fylgdu kæru í ljósriti. Hinn 16. mars 1993 hefði þessum reikningum verið skuldajafnað við kröfu hreppsins á hendur kæranda, sbr. greiðslukvittun hreppsins sem fylgdi kærunni. Kveðst kærandi hafa haldið áfram rekstri eftir 22. mars 1993 og gert grein fyrir honum í skattframtali árið 1994. Samkvæmt þessu er það sjónarmið kæranda, að því er varðar bókhald og skattskil vegna tímabilsins 1. janúar 1993 til uppkvaðningar úrskurðar um gjaldþrotaskipti hinn 22. mars 1993, að þau verkefni séu í verkahring skiptastjóra í þrotabúinu og kæranda óviðkomandi. Þessu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1014/1995.

III.

Með bréfi, dags. 14. júní 1996, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Kærandi skilaði skattframtali árið 1994, sem dagsett er 15. mars 1994 og barst skattstjóra hinn 2. maí 1994 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattstjóri lagði skattframtalið til grundvallar við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1994 að gerðum breytingum sem ekki er ágreiningur um, sbr. bréf skattstjóra, dags. 17. maí 1994. Ljóst er að skattstjóri leit svo á að skattframtalið tæki til allra tekna kæranda á árinu 1993 og allra eigna hans og skulda í árslok 1993. Í skattframtalinu var þess getið að bú kæranda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta hinn 20. mars 1993 og var vísað til bústjóra varðandi upplýsingar varðandi eignir og skuldir frá fyrra ári. Samkvæmt þessu og upplýsingum kæranda við rekstur málsins var ljóst að skattskil kæranda náðu ekki til alls ársins 1993 heldur tímabilsins frá því að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 22. mars 1993 til loka þess árs. Ágreiningsefni máls þessa er afmarkað við þá ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali hans árið 1994, eins og það lá fyrir, greiðslu fyrir snjómokstur frá A-hreppi 125.758 kr. án virðisaukaskatts og hækka hreinar tekjur í reit 62 í skattframtalinu um þá fjárhæð. Byggði skattstjóri á því, sbr. endurákvörðun hans, dags. 23. október 1995, að þar sem salan hefði farið fram fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti bæri að tekjufæra hana hjá kæranda. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 28. desember 1995, er síðan tekið fram að líta verði svo á að tekjur þrotabús séu einungis þær tekjur sem skiptastjóri aflar meðan á skiptum stendur og aðrar tekjur séu tekjur viðkomandi einstaklings eða félags hvort sem þeirra er aflað fyrir eða eftir gjaldþrot. Þannig hefur skattstjóri ekki gert kröfu um sjálfstæð skattskil vegna kæranda tímabilið 1. janúar 1993 til 22. mars 1993 heldur litið svo á að fyrirliggjandi skattframtal hafi náð til alls ársins 1993 og einungis hafi á það skort að hin umdeilda greiðsla væri tekjufærð. Sjónarmið kæranda er það að skattskil vegna umræddrar greiðslu séu honum óviðkomandi þar sem hún sé til komin áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Þar af leiðandi sé það hlutverk skiptastjóra að gera grein fyrir greiðslunni, enda hafi hann að lögum öll gögn undir höndum. Ekki virðist út af fyrir sig vera ágreiningur í málinu um það að umrædd greiðsla sé skattskyldar tekjur kæranda.

Kærandi var einstaklingur heimilisfastur á Íslandi allt árið 1993. Hann bar því ótakmarkaða skattskyldu hér á landi allt árið 1993 af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra var aflað, og af öllum sínum eignum hvar sem þær voru, sbr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt framansögðu varðar málið það álitaefni hvernig farið sé framtalsskyldu vegna þess tímabils fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar einstaklings sem ekki hefur verið talið fram fyrir og þar af leiðandi hvernig skattskyldu sé háttað þegar bú einstaklings er tekið til gjaldþrotaskipta innan tekjuárs. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eru þrotabú sjálfstæðir skattaðilar. Ekki er ágreiningur um skatt- eða framtalsskyldu þrotabús kæranda frá þeim tíma að búið stofnaðist og þar til tilvist þess lauk við skiptalok. Þá er út af fyrir sig ekki deilt um skattskyldu kæranda á árinu 1993, hvorki varðandi tímabilið fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti né eftir það tímamark, og að leggja bar fram skattskil vegna kæranda, þ. á m. vegna tímabilsins frá 1. janúar 1993 til 22. mars 1993.

Í því tilviki sem hér um ræðir hefur skattstjóri hvorki krafið kæranda né skiptastjóra í búi hans um skattskil fyrir tímabilið 1. janúar 1993 til 22. mars 1993 þótt honum hafi mátt vera ljóst að framlögð skattskil kæranda náðu aðeins til tímabilsins 23. mars 1993 til 31. desember 1993. Lét skattstjóri við það sitja að færa kæranda til tekna hina umdeildu greiðslu frá A, sem hann hafði upplýsingar um að hafði fallið til kæranda á árinu 1993 fyrir upphaf skipta. Þrátt fyrir þetta og þegar litið er til óhjákvæmilegs samhengis skattskila kæranda fyrir árið 1993 m.a. varðandi persónuafslátt burtséð frá því hverjum ber að annast framtalsskyldu, þykja ekki efni til að fella umrædda tekjufærslu skattstjóra niður, enda er út af fyrir sig óumdeilt að um var að ræða skattskyldar tekjur kæranda og ekki verður séð að meðferð skattstjóra hafi leitt til of hárrar álagningar á kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja