Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingabætur
  • Tekjufærsla
  • Bótauppgjör
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 394/1998

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 28. gr. 2. tölul.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 15. gr.  

Skattstjóri skattlagði hjá kæranda greiðslu frá tryggingafélagi á þeim forsendum að um skattskyldar tekjur væri að ræða. Yfirskattanefnd ómerkti þá ákvörðun skattstjóra þar sem talið var á að málið hefði ekki verið nægjanlega upplýst af hendi skattstjóra áður en hann tók hina umdeildu ákvörðun.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 24. september 1997, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á því hvers vegna greiðsla að fjárhæð 60.000 kr. frá tryggingafélaginu X hf. á árinu 1994 vegna tímabundinnar örorku hefði ekki verið talin til tekna í skattframtali kæranda árið 1995. Vísaði skattstjóri til upplýsinga frá tryggingafélaginu, er hann hefði undir höndum, þar sem fram kæmi að kærandi hefði móttekið umrædda greiðslu. Skattstjóri tók fram að ekki yrði annað séð en um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 14. október 1997, sendi kærandi skattstjóra ljósrit af uppgjöri frá X hf. vegna slyss sem kærandi kvaðst hafa lent í á árinu 1994. Gagn þetta var ljósrit af gíróseðli frá lögmannsstofu vegna greiðslu að fjárhæð 70.810 kr., greiðslustimpluðum 9. september 1994. Kærandi kvaðst ekki hafa fengið launamiða frá tryggingafélaginu vegna umræddra 60.000 kr. og hefði því verið með öllu ókunnugt um að um skattskyldar tekjur væri að ræða, enda hefði henni verið tjáð hjá tryggingafélaginu að þessar bætur væru ekki skattskyldar.

Með bréfi, dags. 24. október 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hennar gjaldárið 1995 vegna tekjufærslu á framangreindri greiðslu frá X hf. 60.000 kr. í skattframtali árið 1995. Byggði skattstjóri á því að um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi gerði ekki athugasemdir við bréf skattstjóra, dags. 24. október 1997, og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. nóvember 1997, hratt skattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd. Í forsendum skattstjóra segir svo:

„Í svarbréfi yðar dags. 14. október sl. kemur fram að yður hafi verið tjáð af tryggingafélaginu að ofangreindar bætur væru eigi skattskyldar og launamiði vegna þeirra hafi eigi borist. Launamiðar eru ekki skilyrði fyrir skattskyldu, en um skattskyldu framangreindra greiðslna vísast til 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eru yður því færðar til tekna greiðslur frá X hf., vegna tímabundinnar örorku, sem yður voru greiddar á árinu 1994.“

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra um endurákvörðun verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 28. nóvember 1997.

Kærandi kveðst hafa lent í bílslysi árið 1994. Hún hafi fengið 673.456 kr. sem eingreiðslu frá X hf. Af þessari fjárhæð hafi hún greitt 72.281 kr. í lögfræðikostnað og því hafi komið í hennar hlut 601.175 kr. Þá hafi hún fengið greiðslu þann 8. september 1994 að fjárhæð 70.810 kr. sem hefði verið skilgreind sem greiðsla fyrir vinnutap og kostnaður á yfirliti frá X hf. er fylgdi kærunni í ljósriti. Kærandi kveðst hafa talið þessa fjárhæð vera greiðslu fyrir ónýt föt og nauðsynleg lyf sem hún hefði ekki fengið greitt fyrir sérstaklega. Mánaðarlaun hennar hefðu verið um 65.000 kr. og hafi vinnuveitandi hennar greitt henni veikindalaun í þrjá og hálfan mánuð eftir slysið en X hf. hafi greitt henni hálfan mánuð. Þar sem ekki sé hægt að sjá í skjölum frá tryggingafélaginu hvað hefði verið greitt vegna vinnutaps annars vegar og kostnaðar hins vegar og engir launamiðar hefðu borist frá tryggingafélaginu telur kærandi að í hæsta lagi eigi að tekjufæra í skattframtali hennar 32.500 kr. Annað væri þá greiðsla fyrir útlagðan kostnað og ónýtan fatnað.

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að umrædd greiðsla frá tryggingafélaginu verði ekki skattlögð þar sem hún hafi verið metin varanlegur öryrki. Til vara fer kærandi fram á að hún verði í mesta lagi látin greiða skatt af 32.500 kr. miðað við hálfsmánaðar vinnutap og að þeim tekjum verði dreift á móti hugsanlega ónýttum persónuafslætti frá árinu 1994. Heilsufar hennar sé þannig að henni sé ekki fært að vinna fyrir þessum sköttum. Með kærunni fylgdi læknisvottorð og vottorð félagsmálastjóra Y-bæjar svo og lokauppgjör X hf., dags. 13. júní 1997, vegna umrædds slyss, bótauppgjör lögmannsstofu vegna slyssins frá því í júní 1997 og fyrrgreint yfirlit X hf. vegna tjónsins.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 12. desember 1997, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

II.

Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 24. september 1997, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 14. október 1997, boðaði skattstjóri kæranda hina umdeildu tekjuhækkun með bréfi, dags. 24. október 1997, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, eins og grein þessari var breytt með 16. gr. laga nr. 145/1995. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. nóvember 1997, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995. Var úrskurður þessi kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt 6. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995.

Skattstjóri skattlagði hjá kæranda umrædda greiðslu frá X hf. að fjárhæð 60.000 kr. og vísaði til þess að um væri að ræða bætur vegna tímabundinnar örorku og því skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Í bréfi sínu, dags. 24. september 1997, vísaði skattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga frá tryggingafélaginu án þess þó að gera nánari grein fyrir upplýsingum þessum eða kynna kæranda gögn þar að lútandi, að því er séð verður, svo sem rétt hefði verið, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.

Með kæru sinni til yfirskattanefndar, dags. 28. nóvember 1997, og bréfi sínu til skattstjóra, dags. 14. október 1997, hefur kærandi lagt fram ýmis gögn varðandi bótauppgjör vegna slyss þess sem henti kæranda. Kemur fram af hálfu kæranda í kærunni að greiddar voru að einhverju leyti bætur vegna vinnutaps. Kærandi telur þó að þær bætur séu mun lægri en skattstjóri hefur fært til tekna, sbr. varakröfu kæranda, og bendir jafnframt á að í yfirliti X hf. séu í einni fjárhæð 70.810 kr. tilgreind greiðsla vegna vinnutaps og kostnaðar. Sjónarmið kæranda er það að með þessari greiðslu hafi m.a. verið greitt fyrir ónýt föt og nauðsynleg lyf sem ekki hafi verið bætt sérstaklega.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að ekki er samræmi milli þeirrar fjárhæðar, sem skattstjóri byggði á og tekjufærði sem skattskyldar slysabætur vegna tímabundinnar örorku, og þess sem framlögð gögn af hendi kæranda bera með sér sem m.a. stafa frá tryggingafélaginu. Verður raunar ekki séð að unnt sé að henda reiður á hugsanlegum skattskyldum hluta bótagreiðslna tryggingafélagsins á grundvelli þeirra gagna um bótauppgjör, sem kærandi hefur lagt fram, og stafa frá því. Samkvæmt þessu og þar sem skattstjóri hefur, eins og fyrr segir, enga grein gert fyrir þeim upplýsingum, sem hann kveðst hafa undir höndum, verður ekki hjá því komist að draga þá ályktun að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst af hendi skattstjóra áður en hann tók hina umdeildu endurákvörðun, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu virtu og málsmeðferð skattstjóra að öðru leyti, sem að framan er lýst, verður að ómerkja hina kærðu endurákvörðun.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja