Úrskurður yfirskattanefndar

  • Framlag í lífeyrissjóð

Úrskurður nr. 398/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 24/1986, 6. gr., 8. gr.  

Deilt um frádrátt vegna eigin lífeyrissjóðsframlags kæranda, sem hafði með höndum smábátaútgerð, en skattstjóri og ríkisskattstjóri töldu að frádráttur takmarkaðist við 6% af reiknuðu endurgjaldi kæranda. Yfirskattanefnd benti á að engan áskilnað væri að finna í lögum um að frádráttarbært framlag atvinnurekanda takmarkaðist við 6% af launum eða reiknuðu endurgjaldi. Þá var tekið fram að tillög til lífeyrissjóðs vegna kæranda væru ákvörðuð með sérstökum hætti, enda féllu þau undir greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Var fallist á kröfu kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda gjaldárið 1996 fylgdi ársreikningur vegna smábátaútgerðar kæranda árið 1995. Í rekstrarreikningnum færði kærandi tekjur af fisksölu 6.282.178 kr. og til gjalda færði hann m.a. greiðslu í lífeyrissjóð 117.296 kr. Þá færði hann reiknað endurgjald 1.320.000 kr. í reit 24 á framtalinu. Með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði gert þá breytingu á skattframtali hans að tillag í lífeyrissjóð 117.296 kr., gjaldfært í rekstrarreikningi, hefði verið fellt niður. Iðgjald af lífeyristryggingu atvinnurekandans sjálfs teldist ekki gjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 3. júní 1997, skoraði skattstjóri á kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 að láta í té upplýsingar varðandi skattframtal sitt árið 1996. Í dómi Hæstaréttar í árslok 1996 hefði verið fallist á gjaldfærslu lífeyrissjóðsgjalds (mótframlags) af eigin launum atvinnurekanda. Sá gjaldaliður hefði verið felldur niður af rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1995 með bréfi skattstjóra, dags. 25. júlí 1996. Svo að unnt yrði að koma við leiðréttingu þar á var farið fram á að lögð yrði fram staðfesting frá lífeyrissjóði á heildargreiðslu kæranda af eigin launum á árinu 1995.

Með bréfi, dags. 8. júní 1997, sendi kærandi yfirlit um iðgjöld sín frá Lífeyrissjóði sjómanna, dags. 1. mars 1996. Samkvæmt yfirlitinu greiddi kærandi á árinu 1995 til lífeyrissjóðsins 78.198 kr. sem iðgjald kæranda og sem mótframlag atvinnurekanda 117.297 kr.

Með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda, dags. 4. júlí 1997, ákvarðaði skattstjóri kæranda sem mótframlag vegna iðgjalds í lífeyrissjóð í rekstrarreikningi 79.200 kr. þar sem frádrátturinn takmarkaðist við 6% af reiknuðu endurgjaldi.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 31. júlí 1997, og krafist hækkunar á mótframlagi sínu vegna iðgjalds í lífeyrissjóð á rekstrarreikningi 1995 í 117.296 kr. Bendir kærandi á að smábátaeigendur séu skyldaðir til að greiða minnst 3,11% af heildartekjum í lífeyrissjóð sjómanna og sé verið að mismuna kæranda þegar aðrir lífeyrisgreiðendur fái að draga 60% af greiddum lífeyrisiðgjöldum frá í rekstri sínum.

Með bréfi, dags. 5. september 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Hámark leyfilegs frádráttar er 6% og er viðmiðunarfjárhæðin í öllum tilvikum reiknað endurgjald vegna eigin starfa. Að mati ríkisskattstjóra ber því að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

II.

Með dómi Hæstaréttar, sem upp var kveðinn 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995 [H 1996: 4248], var fallist á að framlag sjálfstætt starfandi atvinnurekenda til lífeyrissjóðs af eigin vinnu vegna þess hluta, sem almennt greiðist af vinnuveitanda, teljist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, þannig að draga megi það frá atvinnurekstrartekjum áður en skattstofn er ákveðinn. Út af fyrir sig er óumdeilt í máli þessu að sá hluti lífeyrissjóðstillags kæranda á árinu 1995, sem jafnað verður til framlags vinnuveitenda í greiðslum til lífeyrissjóðs vegna launþega, nam 117.296 kr. Með endurákvörðun sinni, dags. 4. júlí 1997, hefur skattstjóri fallist á að kæranda bæri frádráttur vegna atvinnurekandaframlags, en talið að frádrátturinn takmarkist við 6% af reiknuðu endurgjaldi og hefur ríkisskattstjóri tekið undir það án þess að frekari rökstuðningur hafi verið færður fyrir því. Engan áskilnað er að finna í lögum um að frádráttarbært framlag atvinnurekanda takmarkist við 6% af launum eða reiknuðu endurgjaldi, svo sem skattstjóri hefur byggt ákvörðun sína á. Kærandi gjaldfærði á rekstrarreikningi sínum árið 1995 117.296 kr. sem var samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Lífeyrissjóði sjómanna atvinnurekendaframlag vegna lífeyrissjóðsiðgjalda kæranda til sjóðsins vegna hans sjálfs. Var fjárhæðin 60% af lífeyrissjóðsiðgjöldum vegna kæranda. Eins og kærandi hefur bent á eru tillög til lífeyrissjóðs vegna kæranda ákvörðuð með sérstökum hætti, enda falla þau undir greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Greiða framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur tiltekinn hundraðshluta af samanlögðu hráefnisverði þess afla, sem þeir taka við af opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum, inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, sbr. 6. gr. laga nr. 24/1986. Af því fé sem þannig safnast á greiðslumiðlunarreikning smábáta rennur tiltekinn hundraðshluti til Lífeyrissjóðs sjómanna, sbr. 8. gr. laganna. Með vísan til framanritaðs, þ.m.t. nefnds dóms Hæstaréttar, er fallist á kröfu kæranda um gjaldfærslu á 117.296 kr. í rekstrarreikningi fyrir árið 1995.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja