Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Vátryggingaiðgjöld

Úrskurður nr. 274/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Deilt um gjaldfærslu vátryggingaiðgjalda vegna sjúkra- og slysatryggingar annars vegar og afkomutryggingar hins vegar. Yfirskattanefnd féllst á gjaldfærslu iðgjalda af hinni fyrrnefndu tryggingu með vísan til skatt- og úrskurðaframkvæmdar. Þá var fallist á frádráttarbærni iðgjalda af afkomutryggingu, enda þótti ljóst samkvæmt tryggingaskilmálum að umrædd trygging væri í eðli sínu ein tegund sjúkra- og slysatrygginga.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi starfaði sem læknir … og hafði auk þess tekjur af sjálfstæðri læknisstarfsemi. Vegna þeirrar starfsemi fylgdi ársreikningur vegna ársins 1995 með skattframtali kæranda árið 1996.

Hinn 9. janúar 1997 móttók ríkisskattstjóri erindi umboðsmanns kæranda þess efnis að álagning opinberra gjalda gjaldárið 1996 yrði tekin til endurskoðunar þar sem í ljós hefði komið að fallið hefði niður að gjaldfæra í rekstrarreikningi tryggingaiðgjöld vegna starfa kæranda á árinu 1995 að fjárhæð 280.876 kr. Erindinu fylgdu gögn um þessar greiðslur.

Hinn 27. maí 1997 féllst ríkisskattstjóri á að taka til greina 36.936 kr. af umræddum greiðslum og ákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1996 að nýju í samræmi við það, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í endurákvörðun ríkisskattstjóra segir m.a. svo:

„Erindinu fylgdu gögn til staðfestingar tryggingagreiðslum gjaldanda á árinu 1995 og bera þau með sér að einungis iðgjald að upphæð kr. 36.936 virðist vera vegna hugsanlegra bótagreiðslna vegna starfsábyrgðar gjaldanda sem skurðlæknis. Önnur tryggingaiðgjöld virðast svo vera vegna dánarbóta, örorku og atvinnumissis. Teljast þau tryggingagjöld því vera vegna persónulegra trygginga gjaldandans sjálfs.

Er því einungis fallist á að iðgjaldagreiðslur að upphæð kr. 36.936 komi til frádráttar og lækkar rekstrarhagnaður sem þeirri fjárhæð nemur og verður kr. 286.865 og stofn til álagningar tekjuskatts og útsvars verður kr. 7.057.115 í stað kr. 7.094.051.“

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur endurákvörðun ríkisskattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 13. júní 1997, og boðað að gerð yrði grein fyrir kæruefni síðar. Með bréfi, dags. 5. september 1997, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Tekið er fram að kærandi hafi á árinu 1995 keypt sér afkomutryggingu, frjálsa ábyrgðartryggingu og sjúkra- og slysatryggingu. Iðgjöld vegna þessara trygginga hafi samtals numið 280.876 kr. Ríkisskattstjóri hafi fallist á að leyfa frádrátt vegna frjálsrar ábyrgðartryggingar 36.936 kr. Farið er fram á að yfirskattanefnd úrskurði hvort iðgjöld afkomutryggingar 187.512 kr. og sjúkra- og slysatryggingar 56.428 kr. falli undir frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Bent er á að samkvæmt 1. mgr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 væru tryggingabætur, sem kærandi fengi vegna afkomutryggingar, skattskyldar, þar sem um mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur væri að ræða.

III.

Með bréfi, dags. 23. janúar 1998, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Fram er komið að hin umkrafða greiðsla á vátryggingaiðgjöldum kæranda samtals 280.876 kr. er vegna þrenns konar trygginga, þ.e. starfsábyrgðartryggingar, sjúkra- og slysatryggingar og afkomutryggingar. Hefur ríkisskattstjóri fallist á frádráttarbærni iðgjalda af fyrstnefndu tryggingunni og er það atriði ekki til kærumeðferðar.

Tryggingaskilmálar þeirrar sjúkra- og slysatryggingar, sem um ræðir, liggja fyrir í málinu. Samkvæmt þeim skilmálum er um að ræða hefðbundna tryggingu af þessu tagi þar sem kæranda eru tryggðar bætur í formi dagpeninga, sé um tímabundinn missi starfsorku að ræða vegna slysa eða sjúkdóma, svo og bætur vegna varanlegs líkamstjóns og örorku. Samkvæmt þessu og skatt- og úrskurðarframkvæmd þykir bera að taka til greina þann þátt hinna umdeildu tryggingaiðgjalda sem runnu til kaupa á þessari tryggingu. Í málinu liggja fyrir skilmálar þeirrar afkomutryggingar sem kærandi keypti sér. Samkvæmt skilmálunum greiðir vátryggingafélagið bætur við skerðingu á starfsorku af völdum sjúkdóms eða slyss er vátryggður verður fyrir eins og nánar greinir. Stofnast réttur til bóta ef færni vátryggðs til að afla tekna skerðist af völdum sjúkdóms eða slyss svo sem nánar er kveðið á um í skilmálunum. Samkvæmt skilmálunum er ljóst að afkomutrygging þessi er í eðli sínu ein tegund sjúkra- og slysatrygginga. Að því athuguðu þykja ekki efni til annars en sama gildi um frádráttarbærni iðgjalda af þessari tryggingu og hinni hefðbundnu sjúkra- og slysatryggingu. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er krafa kæranda tekin til greina, enda er ekki deilt um fjárhæðir í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja