Úrskurður yfirskattanefndar
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Kæranleg ákvörðun
- Kröfugerð ríkisskattstjóra
- Málsmeðferð áfátt
Úrskurður nr. 359/2000
Staðgreiðsla 1998
Lög nr. 30/1992, 1. gr., 2. gr. 1. mgr., 3. gr. 1. mgr., 6. gr. 3. mgr. (brl. nr. 96/1998, 2. gr. a-liður) Lög nr. 45/1987, 23. gr. Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 13. gr.
Kærð var ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingu á staðgreiðslu vegna kæranda árið 1998, þ.e. lækkun áður ákvarðaðrar staðgreiðslu. Kröfu ríkisskattstjóra um frávísun kærunnar var hafnað þar sem talið var að kæranda væri heimilt að skjóta umræddri ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar eftir reglum laga nr. 30/1992. Ákvörðun ríkisskattstjóra var ómerkt þar sem ekki varð séð, eins og málið lá fyrir yfirskattanefnd, að ríkisskattstjóra hefði verið unnt að framkvæma hina umdeildu breytingu á staðgreiðslu vegna kæranda án þess að gefa kæranda áður kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum af því tilefni. Var því beint til ríkisskattstjóra að færa uppgjör staðgreiðslu kæranda í fyrra horf.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 21. desember 1999, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um leiðréttingu á uppgjöri staðgreiðslu vegna ársins 1998. Tók ríkisskattstjóri fram að stöðu kæranda vegna innheimtu tekjuskatts og útsvars hefði verið breytt þannig að staðgreiðsla til greiðslu tekjuskatts hefði verið lækkuð um 7.518 kr. og næmu verðbætur 188 kr. Þá hefði staðgreiðsla til greiðslu útsvars verið lækkuð um 3.183 kr. og næmu verðbætur 80 kr. Skuldastaða kæranda hefði því samtals hækkað um 10.969 kr. Gat ríkisskattstjóri þess að tilkynning um leiðréttingu hefði verið send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs.
Með kæru, dags. 4. janúar 2000, hefur kærandi skotið ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Kærandi gerir kröfu um að breyting ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og styður þá kröfu eftirfarandi rökum:
„1. Kæranda hefur ekki borist neitt bréf frá embætti ríkisskattstjóra eða öðrum skattembættum þar sem athugasemdir hafa verið gerðar við fjárhæðir staðgreiðsluskila hans vegna ársins 1998.
2. Í bréfi ríkisskattstjóra er hvergi vísað til lagaákvæða, hvorki þeirra sem heimila embættinu að breyta fjárhæðum staðgreiðsluskila né til þeirra ákvæða sem eiga við um breytinguna. Þannig er öldungis óljóst af hvaða tilefni breytingin er tilkomin.
3. Í bréfi ríkisskattstjóra er sýnd breyting vegna ársins 1998. Nú er það svo að staðgreiðsla miðast við mánuði. Þannig er öldungis óljóst hvaða mánuð eða mánuðum er verið að breyta.
4. Hér er um að ræða breytingu sem gerð er án nokkurs fyrirvara. Kæranda var ekki gefinn kostur á að tjá sig um efni máls. Verður að telja að þetta brjóti í bága við ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
5. Ekki er vísað í kærurétt til yfirskattanefndar skv. málsmeðferðarreglum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. V. og VI. kafla laga nr. 45/1987.“
Með bréfi, dags. 18. febrúar 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður skattstjóra eða ríkisskattstjóra sem kæranlegur er til hennar skv. ákvæðum 3. gr. laga nr. 30/992, um yfirskattanefnd.“
II.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvörðunar skatta og gjalda samkvæmt þar tilgreindum lögum, þ.m.t. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Kæra í máli þessu varðar ákvörðun ríkisskattstjóra, sem hefur á hendi yfirstjórn staðgreiðslu samkvæmt 23. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um leiðréttingu á staðgreiðslu vegna kæranda árið 1998, þ.e. lækkun áður ákvarðaðrar staðgreiðslu. Var kæranda tilkynnt um breytinguna með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 21. desember 1999. Í lögum nr. 45/1987 er ekki til að dreifa sérstökum reglum um kæruheimildir vegna ágreiningsefna sem rísa við framkvæmd þeirra laga. Samkvæmt því og þar sem ágreiningsmál um ákvörðun skatta og gjalda samkvæmt umræddum lögum falla samkvæmt framansögðu undir úrskurðarvald yfirskattanefndar, verður að skýra framangreind ákvæði laga nr. 30/1992 svo, sbr. og 1. mgr. 3. gr. þeirra, að kæranda sé heimilt að skjóta hinni umdeildu ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Verður því að hafna kröfu ríkisskattstjóra um frávísun kærunnar frá yfirskattanefnd.
Í bréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 21. desember 1999, kemur ekkert fram um lagagrundvöll hinnar kærðu ákvörðunar um leiðréttingu á staðgreiðslu vegna kæranda né heldur um ástæður hennar. Þannig er ákvörðunin með öllu órökstudd af hendi ríkisskattstjóra. Í kæru til yfirskattanefndar kemur m.a. fram af hálfu kæranda að honum sé ekki kunnugt um tilefni breytingarinnar og sé því ekki unnt að tjá sig um hana efnislega. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu er látið við það sitja að krefjast frávísunar kærunnar á þeim forsendum að ekki liggi fyrir úrskurður sem kæranlegur er til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga nr. 30/1992. Hvað sem líður því sjónarmiði ríkisskattstjóra, sem samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á, verður að telja að ærið tilefni hafi verið til þess eins og málið er vaxið og í ljósi athugasemda kæranda í kæru til yfirskattanefndar að ríkisskattstjóri gerði í kröfugerð sinni til yfirskattanefndar grein fyrir grundvelli og forsendum þeirrar leiðréttingar á staðgreiðslu kæranda sem er tilefni kæru hans, sbr. m.a. síðari málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Um það verður ekkert ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd samkvæmt framanrituðu verður ekki séð að ríkisskattstjóra hafi verið unnt að framkvæma þá breytingu á staðgreiðslu vegna kæranda sem í málinu greinir án þess að gefa kæranda áður kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum af því tilefni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Með hliðsjón af framansögðu þykir ekki hjá því komist að ómerkja hina kærðu breytingu ríkisskattstjóra á staðgreiðslu vegna kæranda. Er því beint til ríkisskattstjóra að færa uppgjör staðgreiðslu kæranda ársins 1998 í fyrra horf.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða breyting ríkisskattstjóra er ómerkt. Ríkisskattstjóra er falið að annast gjaldabreytingar sem leiða af niðurstöðu úrskurðar þessa.