Úrskurður yfirskattanefndar
- Vantaldar tekjur
- Kröfugerð ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 365/2000
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 92. gr. 1. mgr., 94. gr. Lög nr. 30/1992, 6. gr. 3. mgr. (brl. nr. 96/1998, 2. gr. a-liður)
Í kæru til yfirskattanefndar mótmælti kærandi að hafa þegið greiðslu frá einkahlutafélagi nokkru, sem skattstjóri hafði fært honum til tekna á þeim grundvelli að um vantaldar tekjur væri að ræða, og kvaðst aldrei hafa verið á launaskrá hjá umræddu félagi. Yfirskattanefnd taldi að fram komin andmæli kæranda hefðu gefið ríkisskattstjóra tilefni til að afla upplýsinga um hina umdeildu launagreiðslu frá einkahlutafélaginu og gera grein fyrir upplýsingunum í kröfugerð sinni fyrir yfirskattanefnd. Þar sem þessa var ekki gætt þóttu ekki efni til annars en að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu hinnar kærðu tekjuviðbótar.
I.
Málavextir eru þeir að skattstjóri reit kæranda bréf, dags. 6. desember 1999, þar sem fram kom að samkvæmt launauppgjöf í staðgreiðslu hefði kærandi fengið greidd laun að fjárhæð 58.000 kr. frá X ehf. á árinu 1998. Kvað skattstjóri fyrirhugað að færa kæranda umrædd laun til tekna í skattframtali hans árið 1999 að viðbættu 25% álagi, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 10. janúar 2000, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd.
Með ódagsettri kæru, sem móttekin var hjá yfirskattanefnd 24. janúar 2000, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Kæran er svohljóðandi:
„Þetta bréf varðar mál (meðfylgjandi bréf). Ég skrifa þetta bréf vegna þess að ég tel mig aldrei hafa verið á launaskrá hjá þessum aðilum og hvaða rugl þetta er. Eina sem ég get lagt fram er það að biðja ykkur að kanna öll þau gjöld sem þeir eiga að borga ef ég hefði verið á launaskrá, og það að 58.000.- er tilbúin tala. Vonandi verður þetta leiðrétt sem fyrst.“
Með bréfi, dags. 18. febrúar 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærandi fer fram á að felld verði niður sú ákvörðun skattstjóra að færa honum til tekna vantalin laun frá X að fjárhæð 58.000 kr. Sömuleiðis er farið fram á niðurfellingu á 25% álagi á vantalinn skattstofn. Meðfylgjandi kærunni eru engin gögn sem styðja þá fullyrðingu kæranda að hann hafi aldrei verið á launaskrá viðkomandi launagreiðanda en ljóst er að gefinn var út launamiði vegna þessarar greiðslu á hendur kæranda.
Að mati ríkisskattstjóra er að svo búnu ekki hægt að fallast á kröfur kæranda og því farið fram á að beiðni hans um leiðréttingu verði synjað að svo stöddu.“
II.
Skattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali hans árið 1999 58.000 kr. samkvæmt launauppgjöf frá X ehf. Samkvæmt þessu lá fyrir skattstjóra launauppgjöf greiðanda gerð samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981. Ákvæði þetta er grundvöllur upplýsingaskyldu í þessum efnum. Kærandi gerði ekki neinar athugasemdir við boðunarbréf skattstjóra, dags. 6. desember 1999.
Eins og fram er komið svaraði kærandi ekki bréfi skattstjóra, dags. 6. desember 1999, þar sem honum var boðuð hin kærða breyting á skattframtali hans árið 1999 vegna ætlaðra vantalinna launa frá X ehf. Í kæru til yfirskattanefndar mótmælir kærandi því að hafa þegið hina umdeildu launagreiðslu frá einkahlutafélagi þessu og kveðst aldrei hafa verið á launaskrá félagsins. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu er látið við það sitja að gera kröfu um að kæru kæranda verði synjað að svo stöddu með því að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings fullyrðingum sínum. Telja verður að fram komin andmæli kæranda hafi gefið ríkisskattstjóra sérstakt tilefni til að afla upplýsinga um hina umdeildu launagreiðslu frá X ehf. á grundvelli þeirrar heimildar sem embættið hefur samkvæmt 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og gera grein fyrir þeirri upplýsingaöflun í kröfugerð sinni fyrir yfirskattanefnd, sbr. sérstaklega síðari málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Að svo vöxnu máli þykja ekki efni til annars en að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu hinnar kærðu tekjuviðbótar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða breyting skattstjóra er felld úr gildi.