Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurupptaka úrskurðar
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 375/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr. 2. mgr.)   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 24. gr.  

Kærandi krafðist endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 77/2000 á þeim forsendum að honum hefði láðst að gera kröfu um málskostnað í kæru. Yfirskattanefnd benti á að það væri skilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði að krafa þess efnis væri höfð uppi við meðferð málsins og hefði kæranda verið kynnt skilyrðið við staðfestingu á móttöku á kæru hans til yfirskattanefndar. Var endurupptökubeiðni kæranda hafnað.

I.

Með bréfi, dags. 31. mars 2000, hefur umboðsmaður kæranda gert kröfu um að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður úr ríkissjóði vegna kostnaðar hans af rekstri máls þess sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 77, 1. mars 2000. Í bréfinu kemur fram að honum hafi láðst að gera kröfu um málskostnað í kæru. Þá kemur fram að kostnaður af rekstri málsins nemi 19.500 kr.

II.

Líta verður á bréf umboðsmanns kæranda, dags. 31. mars 2000, sem beiðni um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 77, 1. mars 2000. Með úrskurði þessum var fallist á að akstur kæranda um fimm mánaða skeið á milli A og B vegna náms hans … í B teldist frádráttarbær kostnaður vegna aksturs í þágu launagreiðanda, enda þótti ekki annað unnt en að miða við að vinnustaður kæranda hefði verið … á A. Yrði umræddur akstur því ekki talinn hafa verið milli heimilis og vinnustaðar.

Með 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er breytti 2. mgr. 8. gr. þeirra laga, var lögfest að yfirskattanefnd gæti úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Ákvæði þetta er svohljóðandi:

„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“

Í bréfi yfirskattanefndar til kæranda, dags. 15. desember 1999, þar sem móttaka kærunnar var staðfest var kæranda jafnframt kynnt umrætt ákvæði. Samkvæmt greindu lagaákvæði skal hafa uppi kröfu um málskostnað við meðferð málsins. Enn fremur verður ákvæði þessu ekki beitt nema um sé að ræða kostnað sem kærandi hefur stofnað til vegna meðferðar málsins. Við meðferð máls kæranda, sem lauk með framangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 77, 1. mars 2000, kom ekki fram af hálfu kæranda krafa um að úrskurðað yrði um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Þá er ekki í máli þessu um að ræða slíkt tilvik sem fellur undir 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki talið að lagaskilyrði sé til þess að mál kæranda verði tekið til nýrrar meðferðar og úrskurðað um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Endurupptökubeiðni kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 77/2000 vegna ákvörðunar málskostnaðar úr ríkissjóði er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja