Úrskurður yfirskattanefndar
- Sjómannaafsláttur
- Lögskráningardagar
Úrskurður nr. 418/2000
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður (brl. nr. 85/1991, 10. gr.) Lög nr. 43/1987, 5. gr.
Skattstjóri lækkaði dagafjölda sjómannaafsláttar í skattframtali kæranda á þeirri forsendu að bát þeim, sem kærandi var lögskráður á, hefði ekki verið haldið til veiða eftir 15. apríl 1998. Kærandi gerði kröfu um fullan sjómannaafslátt með vísan til þess að hann hefði verið lögskráður á bátinn allt árið. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu þar sem ekki var fallist á að taka tillit til þess tímabils þegar bátnum var ekki haldið úti. Vísaði yfirskattanefnd til þess að kærandi, sem væri aðaleigandi þess einkahlutafélags sem átti og gerði bátinn út, hefði enga grein gert fyrir lögskráningunni og að lögum samkvæmt miðuðust dagar, sem veittu rétt til sjómannaafsláttar, við þá daga sem skylt væri að lögskrá.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1999 fylgdi greinargerð um sjómannaafslátt (RSK 3.13) þar sem tilgreindir voru 365 lögskráningardagar á bátnum X og ráðningartími allt árið 1998. Með bréfi, dags. 30. maí 1999, krafði skattstjóri kæranda um rökstuðning fyrir kröfu um 365 sjómannadaga. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu væru löndunardagar alls 30 á tímabilinu 26. janúar 1998 til 15. apríl 1998 og þar af væri einungis landað tvisvar í apríl, þ.e. 14. og 15. þess mánaðar. Virtist því sem úthald bátsins X væri ekki lengra en frá 26. janúar 1998 til 15. apríl 1998. Tók skattstjóri fram að bærust ekki fullnægjandi gögn eða skýringar innan 15 daga frá póstlagningu bréfsins væri fyrirhugað að fækka sjómannadögum. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 29. júní 1999, kom fram að kærandi væri atvinnusjómaður og hefði verið það að ævistarfi. Öll árslaun kæranda væru vegna sjómennsku og hann væri lögskráður á skip allt árið. Róðrafjöldi eða skráðar landanir breyttu þar engu um. Þá kom fram að sjómannslaun væru greidd kæranda jafnt allt árið.
Með bréfi, dags. 27. júlí 1999, tilkynnti skattstjóri kæranda um þá breytingu á skattframtali hans árið 1999 að dagafjöldi sjómannaafsláttar í reit 291 yrði 156 í stað 365. Í bréfi skattstjóra kom fram að báturinn X væri gerður út af Y ehf. og væri kærandi eigandi 70% hlutafjár í því félagi. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu væri löndunartími bátsins frá 26. janúar 1998 til 15. apríl 1998. Þar sem báturinn landaði ekki eftir 15. apríl 1998 yrði ekki séð að um sjómannsstörf væri að ræða hjá kæranda eftir þann tíma þrátt fyrir að hann væri á launum hjá Y ehf. allt árið. Tók skattstjóri fram að sjómannaafsláttur væri háður úthaldi bátsins, eignarhald skipti þar engu máli.
Með kæru, dags. 30. ágúst 1999, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra. Vísaði umboðsmaður til þeirra raka sem fram komu í bréfi hans til skattstjóra, dags. 29. júní 1999. Með kæruúrskurði, dags. 14. desember 1999, staðfesti skattstjóri fyrri ákvörðun sína. Ítrekaði skattstjóri að samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu um landanir X væri aldrei landað eftir 15. apríl 1998 og tók fram að stór hluti aflaheimilda hefði verið fluttur á milli skipa. Kvaðst skattstjóri telja að kærandi hefði ekki unnið sjómannsstörf eftir 15. apríl 1998 og ætti því ekki rétt á sjómannaafslætti frá þeim tíma, sbr. 1. og 2. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri tók fram að sjómannaafsláttur reiknaðist frá 1. janúar til 15. apríl 1998 þ.e. í 105 daga er framreiknað með 1,49 næmi samtals 156 dögum.
Með kæru, dags. 7. janúar 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að ágreiningsefni málsins sé hvort miða skuli sjómannadaga við löndunardaga samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eða lögskráningardaga samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 10/1992, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ásamt 4. og 5. gr. laga nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna. Er þess krafist að kærandi haldi fullum sjómannaafslætti allt árið 1998 og vísað til efnislegra röksemda í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 29. júní 1999.
Með bréfi, dags. 18. febrúar 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
II.
Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991, um breytingu á þeim lögum, skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Í 2. og 3. mgr. þessa stafliðar er nánar fjallað um hverjir eigi rétt á sjómannaafslætti og er m.a. tekið fram að rétt til sjómannaafsláttar hafi þeir sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr., og lögskráðir eru í skipsrúm á fiskiskipi. Í 4. mgr. stafliðarins er fjallað um fjárhæð sjómannaafsláttar og ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar. Skal miða við þá daga sem skylt er að lögskrá sjómenn samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna. Séu dagar þessir 245 á ári eða fleiri skal sjómaður njóta afsláttar alla daga ársins og hlutfallslega séu lögskráningardagar færri en 245, þó aldrei fleiri daga en hann er ráðinn hjá útgerð.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna, skal lögskrá úr skiprúmi „… í hvert sinn er veru skipverja um borð lýkur, hvort heldur er vegna ráðningarslita eða um stundarsakir, vegna orlofs, slyss, veikinda eða ef skip er ekki í förum um stundarsakir vegna t.d. bilana, viðgerða, endurbóta eða skipi er af öðrum ástæðum ekki haldið úti“. Með tilliti til þess að fyrir lá að umræddu fiskiskipi var ekki haldið út til veiða eftir 15. apríl 1998 ákvað skattstjóri að fækka dögum til ákvörðunar sjómannaafsláttar þrátt fyrir það lögskráningartímabil sem í málinu greinir. Af hálfu kæranda, sem er aðaleigandi þessa einkahlutafélags sem skipið á og gerir út, hefur ekki, þrátt fyrir tilefni, verið gerð nein grein fyrir lögskráningunni. Samkvæmt þessu og orðalagi 2. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, þar sem mælt er fyrir um að dagar, sem veita rétt til sjómannaafsláttar, miðist við daga „sem skylt er að lögskrá“, verður ekki fallist á að taka tillit til þess tímabils þegar bátnum X var ekki haldið úti samkvæmt því sem gögn málsins bera með sér, en krafa kæranda um fullan sjómannaafslátt árið 1998 sýnist einungis byggð á því að hann hafi verið lögskráður á bátinn allt árið. Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.