Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lífeyrir, afturvirk leiðrétting
  • Óvissar tekjur
  • Teknategund

Úrskurður nr. 435/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. og C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr. (brl. 97/1996, 1. gr.), 60. gr. 2. mgr., 67. gr. (brl. 97/1996, 7. gr.)  

Í málinu var deilt um hvort ákveðinn hluta greiðslu, sem lífeyrissjóður hafði greitt kæranda sem leiðréttingu á vangoldnum lífeyri yfir 13 ára tímabil, bæri að telja sem eftirlaun og lífeyri samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, eða sem vexti og verð-bætur samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Yfirskattanefnd hafnaði því að um væri að ræða vexti og verðbætur með vísan til þess að sú aðferð, sem hefði verið byggt á við ákvörðun leið-réttingarinnar, hefði verið ætlað að gera kæranda jafnsettan og lífeyrir hans hefði frá upphafi verið ákveðinn á réttum grundvelli. Samkvæmt því bæri að líta á hinn umdeilda hluta greiðslunnar sem skattskyldar tekjur í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna, enda hefði krafa kæranda til greiðslunnar ekki stofnast fyrr en ákvörðun stjórnar lífeyris-sjóðs-ins lá fyrir á árinu 1998.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í reit 43 í skattframtali sínu árið 1999 greiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 2.118.598 kr.

Kærandi reit skattstjóra bréf, dags. 17. maí 1999, þar sem kærandi greindi frá því að á árinu 1998 hefðu eftirlaun hans verið lagfærð „aftur í tímann“. Tók kærandi fram að staðgreiðsluskattur hefði verið reiknaður af allri fjárhæðinni eins og um laun væri að ræða en hluti fjárhæðarinnar væru vextir og verðbætur. Fór kærandi þess á leit að þessi mistök yrðu leiðrétt við álagningu opinberra gjalda ef þess væri kostur. Kærandi tók fram að honum væri ljóst að af hluta vaxtanna bæri að greiða fjármagnstekjuskatt en hann hefði ekki reiknað út hvernig vextir skyldu skiptast milli ára. Með bréfi kæranda fylgdi bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til kæranda, dags. 26. febrúar 1999, þar sem svofelld grein var gerð fyrir leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum hans á árinu 1998:

„Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins greiddi yður 675.567 krónur þann 1. apríl árið 1998, sem var leiðrétting á lífeyri allt aftur til 1.9.1986. Samkvæmt vinnureglum sjóðsins er leiðrétting af þessu tagi núvirðisreiknuð. Hluta upphæðarinnar má því líta á sem vexti eða verðbætur á vangreiddan lífeyri.“

Í bréfinu kom fram sundurliðun á vangreiddum lífeyri kæranda vegna síðustu fjögurra mánaða ársins 1986, áranna 1987 til og með 1997 og fyrstu þriggja mánaða ársins 1998, alls að fjárhæð 515.629 kr. Var tekið fram að samkvæmt þeirri sundurliðun næmi hlutur núvirðisreiknings í greiðslu lífeyrissjóðsins til kæranda 1. apríl 1998 alls 159.938 kr.

Með kæru, dags. 29. ágúst 1999, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999. Í kærunni vísaði kærandi til bréfs síns til skattstjóra frá 17. maí 1999 og fór fram á að skattstjóri tæki málið til úrskurðar þar sem kæranda væri ekki að fullu ljós réttur sinn. Kærandi gat þess að heildarfjárhæð vangreidds lífeyris væri ranglega tilgreind í bréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 26. febrúar 1999, og að rétt fjárhæð væri 716.085 kr. Mismunurinn væri því 200.436 kr. Kærunni fylgdu frekari gögn um tildrög leiðréttingar á lífeyri kæranda vegna áranna 1986 til 1998.

Skattstjóri tók kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 7. desember 1999, og hafnaði kröfu kæranda varðandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Forsendur skattstjóra voru eftirfarandi:

„Á árinu 1998 fékk kærandi greidda leiðréttingu eftirlauna fyrir tímabilið 1. september 1986 til og með mars 1998. Samkvæmt gögnum um þennan útreikning sem kærandi lét fylgja virðist ástæða leiðréttingarinnar sú að ekki var miðað við réttan launaflokk við ákvörðun eftirlaunanna, og samkvæmt bréfi frá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, dags. 12. nóvember sl., við munnlegri fyrirspurn skattstjóra, helgast þetta af breytingum á kjörum eftirmanns í starfi. Alls nam leiðréttingin kr. 716.085 og telur kærandi að af henni séu kr. 159.938 vegna núvirðisreiknings þeirrar fjárhæðar sem greiða bar á hverjum tíma sem jafna megi til vaxta eða verðbóta.

Með hliðsjón af tilurð þessarar greiðslu ber að líta á hana sem óvissar tekjur sem tilheyra þá greiðsluári hvað skattlagningu varðar, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessar prósentur eru lagðar saman og greitt samkvæmt þeim miðað við það mánaðarkaup sem gildir þegar greiðsla á sér stað. Af þessu er ljóst að hér er hvorki um vexti né eiginlegar verðbætur að ræða heldur ákvörðun á réttum lífeyrisgreiðslum og greiðslan því öll í eðli sínu lífeyrisgreiðsla sem skattskyld er samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því ekki fallist á að líta á hluta hinnar leiðréttu fjárhæðar sem fjármagnstekjur.“

II.

Með kæru, dags. 2. mars 2000, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni segir m.a. svo:

„Saga þessa máls er sú að ég hef mjög verið hlunnfarinn í lífeyrisgreiðslum allt frá því ég hætti störfum sem framkvæmdastjóri X 1. janúar 1981. Ástæðan fyrir því er sú að farið var að hækka launagreiðslur í stöðunni að stórum hluta með fjölgun yfirvinnustunda, föst laun, þ.e. lífeyrisvirði stöðunnar hækkaði miklu minna en launavirði hennar.

Ég var einn af fjórum framkvæmdastjórum X og gat hver okkar sem var verið staðgengill [forstjóra] í fjarverum hans. Slíkar fjarverur gátu verið svo dögum og vikum skipti einkum í sambandi við fundi og ráðstefnur erlendis. Árið 1986, 1. sept., var þessu breytt þannig að skipaður var aðstoðar[forstjóri]. Eftirmaður minn, framkvæmdastjóri fjármáladeildar, var skipaður í stöðuna en hann gegndi jafnframt fyrri stöðu sinni. Fyrir þetta fékk hann launahækkun sem var einn til tveir launaflokkar.

Eftir margra ára viðræður við fjármálaráðuneytið um lífeyrismál mín fékk ég bréf, sem fylgir hér með, frá ráðuneytinu, þar sem mér var bent á að sækja um til LSR að fá lífeyrislaun samkvæmt stöðu aðstoðar[forstjóra]. Það var samþykkt af stjórn lífeyrissjóðsins. Ég fékk greiddar aftur í tímann, eða frá 1. sept. 1986, kr. 716.085 og kom það í tvennu lagi vegna mistaka í útreikningi. Bréf lífeyrissjóðsins dags. 26.2.1999 nær aðeins til fyrri hluta greiðslunnar. Mismunur á stofni og greiðslu kr. 200.436 er skilgreindur sem „núvirðisreikningur“. Ég á erfitt með að átta mig á þeirri skilgreiningu. Þetta er ekkert annað en verðbætur og vextir.“

Þá getur kærandi leiðréttingar á lífeyrisgreiðslum árin 1999 og 2000 vegna úrskurðar kjaranefndar. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2000, lagði kærandi m.a. fram gögn þar að lútandi.

Með bréfi, dags. 12. maí 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

III.

Vegna málatilbúnaðar kæranda með tilliti til leiðréttinga á lífeyrisgreiðslum árin 1999 og 2000 skal tekið fram að ekki liggur fyrir kæranlegur úrskurður samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, um annað en þá leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum sem fór fram á árinu 1998 og verður úrlausn málsins því einskorðuð við það.

Fram er komið að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins greiddi kæranda alls 716.085 kr. á árinu 1998 vegna leiðréttingar á lífeyri hans fyrir tímabilið 1. september 1986 til 31. mars 1998. Samkvæmt bréfi lífeyrissjóðsins til kæranda, dags. 26. febrúar 1999, þar sem hinum vangoldna lífeyri er skipt á árin 1986-1998 að báðum árum meðtöldum, var leiðrétting þessi „núvirðisreiknuð“ í samræmi við vinnureglur sjóðsins og er tekið fram í bréfinu að hluta fjárhæðarinnar megi því líta á sem vexti eða verðbætur á vangreiddan lífeyri. Samkvæmt gögnum málsins nemur sá hluti nefndrar fjárhæðar alls 200.436 kr., sbr. fyrrnefnt bréf lífeyrissjóðsins og leiðréttingarblað sjóðsins, dags. 24. júní 1998, sem fylgdi kæru kæranda til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1999. Ágreiningur málsins snýst um það hvort umrædd fjárhæð vegna „núvirðis“ á vangreiddum lífeyri kæranda teljist skattskyld greiðsla á eftirlaunum og lífeyri samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem skattstjóri og ríkisskattstjóri byggja á, eða hvort um vexti eða verðbætur í skilningi 3. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 8. gr. sömu laga, sé að ræða sem skattleggja beri samkvæmt 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, svo sem kærandi heldur fram.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. gr. laga nr. 97/1996, teljast til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. sömu greinar, af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 137/1996.

Leiðrétting sú, sem gerð var á lífeyri kæranda á árinu 1998, stafaði vegna breytinga sem urðu á kjörum eftirmanns hans í starfi, sbr. m.a. bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til skattstjóra, dags. 12. nóvember 1999, sem liggur fyrir í málinu. Var sú leiðrétting gerð í kjölfar ákvörðunar stjórnar lífeyrissjóðsins á árinu 1998 um að lífeyrisgreiðslur til kæranda samkvæmt svokallaðri eftirmannsreglu skyldu taka mið af kjörum aðstoðar[forstjóra], en því embætti mun hafa verið komið á fót á árinu 1986. Í hinum kærða úrskurði skattstjóra er lagt til grundvallar að um óvissar tekjur kæranda hafi verið að ræða, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem skattleggja beri á greiðsluári. Með hliðsjón af tildrögum og aðdraganda hinnar umdeildu leiðréttingar samkvæmt því sem að framan er rakið og eftir því sem gögn málsins bera með sér, þ.á m. lýsing kæranda sjálfs, verður að fallast á með skattstjóra að um óvissar tekjur í skilningi umrædds ákvæðis laga nr. 75/1981 hafi verið að ræða. Er raunar ekki deilt um það atriði, enda taldi kærandi greiðsluna fram í skattframtali sínu árið 1999 eins og fram hefur komið.

Sá „núvirðisreikningur“ á vangreiddum lífeyri kæranda sem mál þetta snýst um kemur fram á leiðréttingarblaði Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 24. júní 1998, sem fylgdi kæru kæranda til skattstjóra, sbr. einnig bréf lífeyrissjóðsins til ríkisskattstjóra, dags. 26. júní 1999, þar sem sjóðurinn óskaði eftir áliti ríkisskattstjóra á skattalegri meðferð „núvirðis“ á vangreiddum lífeyri. Þar er aðferðinni lýst svo: „Núvirði er reiknað þannig að fundið er út hve mörg prósent vantar á að réttur lífeyrir sé greiddur á hverjum tíma. Þá er samanlögð prósenta reiknuð af lífeyri eins og hann er þegar núvirðisreikningur er gerður.“ Samkvæmt þessu er ekki um vexti eða verðbætur í venjulegum skilningi að ræða heldur tiltekna reikniaðferð sem ætlað er að gera kæranda jafnsettan og ef lífeyrir hans hefði frá upphafi tekið mið af kjörum eftirmanns í starfi. Samkvæmt þessu og með tilliti til þess sem upplýst er um tildrög leiðréttingar á lífeyri kæranda á árinu 1998 samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja umræddan hluta „núvirðis“ að fjárhæð 200.436 kr. þátt í lífeyrisgreiðslum til kæranda og því skattskyldar tekjur hans samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda verður að líta svo á að krafa kæranda til viðbótarlífeyris hafi ekki stofnast fyrr en ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins lá fyrir á árinu 1998. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Það athugist að ekki verður séð að skattstjóri hafi svarað bréfi kæranda til hans, dags. 17. maí 1999, svo sem rétt hefði verið.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja